Úr dagbók mjólkurbílstjóra

Ég er að blaða í bókinni minni, bókin er næstum því hluti af mér, og þó að ég tæplega fróðleik þar finni finn ég þó margt, sem að skemmilegt er. Því vil ég reyna að búa til brag bara um það, sem er skrifað einn dag.

Fyrst er þá Helgi með kaffið og kolin, svo kemur næst Rabbi með bolta og rær. Þá er hann Gunnlaugur, mjölið og molinn, en með hvað er Fúsi, nei það var í gær. Grímsi þarf saum ég hef sett það á blað og Sigga mig hitti, en ég skrifa ekki það.

Saurbæjarbóndinn er sjaldan á blaði samt er hann skráður með bokku í dag. Víst er slíkt nauðsyn, það væri nú skaði, ef menn vildu ekki stuðla að ríkisins hag. Eru hér fleiri, það athuga skal Já, önnur er skrifuð hjá Góla í Dal.

Hér er uppskrift á kökum frá Maríu minni, í misgripum hefurðu sent þetta blað, svo glataðist miði frá grannkonu þinni Ég gizkaði á tómat, en skakkt var nú það. Bína var líka að biðja um lakk, Bara að það passi nú liturinn, takk.

Alltaf er skrifað hér meira og meira
því minnið er gallað í bílstjórans haus.
Þarna eru strákar með filmur og fleira,
en fjárskilastjórinn er neftóbakslaus.
Fljótt þarf að kaupa, ef fer nú í hríð
frostlög á miðstöðina í Seljahlíð.

Svo er hér margt sem ég má ekki gleyma,
má heldur tæplega segja því frá.
Oft er það ljúfast að láta sig dreyma
lausnin er sætust, ef gizkað er á.
Flíkur úr nælon ég nefni þær ei,
nú þarf að skýla þér kona og mey.

Enn er hér talsver frá körlum og konum
keðjubréf nokkur og smjörmiðafjöld,
Að sinna því öllu ég hef varla von um,
ég verð þó að fara úr bænum í kvöld.
Einn var að biðja um hornbjöllu á hrút,
það hef ég skrifað, en strika það út.

Sjaldan má bílstjórinn næðisins njóta
nóg er að gera hvern dag, eins og fyrr.
Menn segja, að það fari að breytast til bóta,
bóta – í hverju ég undrandi spyr.
Ég vil, að lífið sé eins og það er,
auðugt af verkefnum, það líkar mér.