Efnahagsþankar
Ég er leikmaður aðeins, sem áhyggjur hefur, andvaka ligg meðan þjóðin mín sefur, og ég hugsa, nú hlustið þið á. Það er örðugt að glíma við efnahagsmálin andinn leggst djúpt, þegar svart er í álinn svo að þingmanni líkist ég þá.
Fyrst skal fengið nú fellt, það er gott fyrir alla, menn græða hér mest, þegar peningar falla, þó að verðbólgan vaxi af því. Þyki fólkinu smá þessi fimm aura króna má fríðindi veita með sérsköttun hjóna, svo að kaupgetan komi á ný.
Það er auðvitað nauðsyn að atvinna haldist, eitthvað sé framleitt og kaup manna gjaldist, og að fé sé í framkvæmdir lagt. Þeir taka þá lán, sem að teljast ei ríkir með tólfprósent vöxtum, það fýsilegt þykir til arðsvonar, svo er mér sagt.
Ég vil afnema skatta, sem almenning rýja, en auðvitað verður að finna upp nýja á munað, slíkt þekkir mín þjóð. Ég hygg, að á fegurðarsamkeppni svanna megi söluskatt leggja og kvennafar manna, sem tenni í ríkisins sjóð.
Okkar matvælaframleiðslu má ekki gleyma, en menn ættu að forðast að neyta hennar heima, nema senda hana á sölustað fyrst. Hjá fátækri þjóð er það fallegur siður, um fimmtíu prósent að greiða hana niður Á eylandi í úthafi nyrzt.
Hér þarf styrkjum að fjölga og styrki að hækka styrki til umbóta má ekki lækka, því alltaf þeir verða okkur vörn. Ég vil styrkja öll félög til sjávar og sveita, sjúkum og fötluðum styrki skal veita, og þeim, sem að búa til börn.
Loks kemur hér úrræðið áhrifamesta til útlanda skulum við senda sem flesta á ráðstefnur þjóða og þing. Að temja sér stórmenna og höfðingjahætti er hollt, þó sé gert meira af vilja en mætti sú aðferð er alkunn og slyng.
Nú hef ég tjáð ykkur tillögur mínar þið teljið þær vonandi glöggar og fínar, en lausar við mælgi og mas. Þetta er í rauninni óþrotlegt efni, ei vil ég lengur það ræni mig svefni, nú fer ég og fæ mér í glas.