Gyðjan

Andans gyðjan yndi ljær
út á slóðum nyrstu.
Okkur flestum er hún kær
frá æskudögum fyrstu.

Þó hún auki orðsins mátt
oft á gleðifundum.
Hef ég framhjá henni þrátt
hroðalega stundum.

Ef hún vill mér vera góð
verð ég öðru að sinna.
Svona rennur banablóð
bernskudrauma minna.

Þegar aðeins um ég bið
engu þarf að kvíða.
Hún mun alltaf leggja lið
litla stöku að smíða.

Oft hún þreytta ástvininn
örmum mjúkum vefur.
Á þeim stundum eitt ég finn
allt hún fyrirgefur.


Heimild: Eyfirskur fróðleikur og gamanmál. 1. Bindi, Kvæði og stökur I