Helgi Magri
Við mættum gjarnan minnast hér í kvöld
þess manns er fyrstur Eyjafjörðinn byggði
Hann átti bæði auragnægð og völd
Þó aldrei neitt á þingmennskuna hyggði,
og tískustefnum tryggðir ei hann sór,
í trúnni var hann blendinn, það ég frétti,
en sinna eigin ferða jafnan fór
og furðu stóra landhelgina setti.
Og þá var stundum þorrablót í sveit,
er Þór var fórnað hrossakjöti og blóði.
Við ungbarnsdrykk þar enginn maður leit,
því ölið sterka um veisluborðin flóði.
Menn voru glaðir, vín á flestum sást,
því varla þekkist nokkur góðtemplari
og þá var enginn um það neitt að fást
þó einhver lenti um stund á kvennafari.
Já, margt er breytt, sem máske betur fer,
við mundum ekki kjósa gamla tímann,
en Helgi magri af hinum flestum ber,
þó hefði hvorki rafmagnið né símann.
Við Eyfirðingar hyllum höfðingjann,
sem hófið kunni og tókst að forðast bölið.
Við erum býsna blendnir eins og hann,
við blótum Þór og drekkum sterka ölið.
Heimild: Eyfirskur fróðleikur og gamanmál. 1. Bindi, Kvæði og stökur I