Húsmæðrarskólinn á Laugalandi 30 ára
Sólarbirta, sífellt vor,
sumardýrð um allan dalinn.
Löngu gengin gæfuspor
geyma myndir, eilíft vor.
Meðan æskan átti þor
aldrei þekktist gróður kalinn.
Sólarbirta, sífellt vor,
sumardýrð um allan dalinn.
Skólinn okkar, öllum kær,
Eyjafjarðar hjartastaður.
Þar sem andinn orku nær
öllum verður dvölin kær.
Þar sem vonin vængi fær
verður sérhver hugur glaður.
Skólinn okkar, öllum kær,
Eyjafjarðar hjartastaður.
Lengist saga, liðin tíð
lýsi þeim, sem veginn kemur.
Ungra meyja mergðin fríð
menntist hér á hverri tíð.
Látið kærleiks ljósin blíð
ljóma héðan öðru fremur.
Lengist saga, liðin tíð
lýsi þeim, sem veginn kemur.
Heimild: Eyfirskur fróðleikur og gamanmál. 1. Bindi, Kvæði og stökur I