Stökur
Vonin flýgur vængjum á,
viskan brautir ryður,
heimskan ætíð hefnd vill fá,
hræsnin valdið styður.
Hratt mig ennþá hugur bar
heim að dyrum þínum
enda skrölta skeifurnar
skáldfák undir mínum.
Glatast margt í grænan sjó,
gullin bárur taka,
yfir vonum okkar þó
ótal stjörnur vaka.
Víst er sveinum vífin kær,
víða leynist eldur,
það sem einum yndi ljær
annars meini veldur.
Meykerling
Silkispöng á svipinn ströng
sveiflar vöngum fínum.
Um dyggðagöngin dimm og þröng
dregst í öngum sínum.
Sætleiki syndarinnar
Oft ég hresstist heims við lind
hvað sem prestar skrifa
Þar sem flest var flækt í synd
fannst mér best að lifa.
Næturuglan
Næturuglan að mér sveif
ung með duglegt takið.
Ástarruglið andann hreif
eins og fulgakvakið.
Lánabeiðandinn
Girntist sess í gróðans reit,
gott var ei til fanta.
Enda varð hans lánaleit
langvinn píslarganga.
Bónus
Hér er bónusæðið elt,
oft á bónus klifað.
Fyrir bónus fjörið selt,
fyrir bónus lifað.
Strit
Látum góðan sveitasið
sálarlífið passa.
Andans þroska eflum við
armlög mykjuhlassa.
Kosningar
Út um torg ég ekki ríð
ösnum flokksbrotanna.
enn ég lista eftir bíð
ójafnaðarmanna.
Skólastofa
Mörgu leynir byggð og borg,
bæði í höll og kofa.
Geymir sögu af gleði og sorg
gömul skólastofa.
Ungleg amma
Hvorki sé ég yst né innst
ellimörk sem heita.
Æskuroði enn mér finnst
ömmuvangann skreyta.
Ást í elli
Girndin örvast eins og fyr,
ellin hörfar bleika,
innri þörfin ekki spyr
um æsku og gjörvuleika.
Haust
Fellur háin haustin á,
hulin gráum klaka,
en ærustráin okkar má
alltaf slá og raka.
Deilugjarn
Deilur voru daglegt brauð,
drógu úr þér kraftinn.
Þú hefur gefið upp þinn auð,
öðrum mest á kjaftinn.
Skáldið
Ég læt mér nægja í lengd og bráð
við lítinn kost að una,
ég er skáld af skrattans náð
og skensa tilveruna.
Kjaftaskurinn
Hetju líkur halur sá
hendir flíkum ljótum,
moldin rýkur rótlaus frá
rómantíkarfótum.
Stakan
Vekur fjör í hreysi og höll
hnittin liðug baga.
Hverfi hún er orðin öll
Íslendinga saga.
Bjartsýni
Við þeim brosir veröld fríð,
sem vilja úr þrautum draga.
Og harma hvorki liðna tíð
né hræðast seinni daga.
Vor
Loftið blánar, breytast ský,
bráðum skána hlýtur.
Þegar hljánar, ísinn í
arma rána flýtur.
Grobbarinn
Hugðist góðan hafa mátt,
hreykinn stóð á plani.
Lék við fljóðin lipur þrátt,
lítill óðinshani.
Stríð
Okkar stríð er óslitið,
aldrei saminn friður.
Andinn leitar upp á við,
efnið togar niður.
Óheppinn
Víða niður vagn hanns rann,
var það frægt í sveitum.
En stærsta slysið henti hann,
í holdsins giljareitum.
Slefberinn
Við alla prúður, engum trúr,
eitri spúði munnur,
gerði klúður öllu úr
ekta slúðurbrunnur.
Goðafoss
Fossinn syngur fjörug ljóð,
freyðir á kátum boðum.
Þreyttur á deilum þungt í flóð
Þorgeir henti goðum.
Út og inn
Engum verður örðug för
út í framtíðina,
ef hann leggur allt sitt fjör
inn í samtíðina.
Timburmenn
Oftast flýgur andinn hátt
eftir svall og vökur.
Ætíð koma ósjálfrátt
okkar bestu stökur.
Menntun
Mörgum hefur menntun fært
miðstöð andans sjóla,
en maður getur líka lært
í lífsins svartaskóla.
Við lát Rósbergs Snædals
Falla óðum foringjar,
fremst er stóðu á sviðum.
Finnur þjóð til fátæktar,
fækkar ljóðasmiðum.
Jól
Blessuð jólin bregðast síst,
burtu njólan ekur,
gæfuhjólið hraðar snýst,
hækka sólin tekur.
Þorrablót
Ég hef þrátt um ævi átt
æti smátt í trogið,
sungið fátt, en kveðið kátt,
kjaftað flátt og logið.
Örvunarlyf
Villtan gróður, von og þrá
vekja fljóðin ungu,
hitnar blóð og hamast þá,
hoppa ljóð af tungu.
Ferskeytla
Sárin græða lífvæn ljóð,
lækna kal og bruna.
Aldrei skortir Íslands þjóð,
efni í ferskeytluna.
Ofnæmi
Ofnæmi sem að mér gekk
eyddi styrk úr mundum.
Eitrun blóðs ég af því fékk
með ástarhita stundum.
Fyrr og nú
Fann ég víða á fyrri tíð
flest sem prýðir bögur.
Þekkti ei kvíða, þraut né stríð,
þá var hlíðin fögur.
Sé ég víða á seinni tíð
sumt er níðir bögur.
Þekkti kvíða þraut og stríð.
Þó er hlíðin fögur.
Orðfæð
Orðaleit um málsins mið
marga lengir vöku,
ef menn sættast ekki við
illa gerða stöku.
Efasemdamaður
Ég er heldur svifaseinn,
á sviði hugsananna.
Verð því aldrei augasteinn,
ofsatrúarmanna.
Í veislu
Veit ég eimað yndi mest,
ungur geymir svanni.
Í munarheimi hlýjum best
harmar gleymast manni.
Heimild: Eyfirskur fróðleikur og gamanmál. 1. Bindi, Kvæði og stökur I