Útgerðar og fiskvinnslupistill
Oft halda þeir, sem stjórna og hafa mörgu að sinna,
að hagurinn sé bundinn við umsetningarmagn.
Helgidaga og nætur þeir vilja láta vinna,
þó vonlítið sé stundum um árangur og gagn.
Þeir hafa hvorki tíma né löngun til að lifa,
en láta tækni og vísindi drottna yfir sér.
Tölvurnar þær reikna og tölvurnar þær skrifa,
í tölvunum býr andi sem dásamlegur er.
Enginn þarf að kvarta, því velgegnin er vissa,
vinna fyrir alla svo hvergi þekkist neyð.
Konurnar fá örstuttar pásur til að pissa,
prúðmannlegir verkstjórar fylgja þeim á leið.
Bónusinn er eitt af því besta sem við þekkjum,
bætir stöðugt kjörin og félagsanda hér.
Útreikningar flóknir með ofurlitlum skekkjum
eru helst það neikvæða við hann, sýnist mér.
Sumir telja fásinnu auðlindum að eyða,
aðrir segja peninga vanti í ríkissjóð,
hafrannsóknarstofnunin helst vill láta veiða
hámerar og karfa til að bjarga vorri þjóð.
Þorskinn á að friða og þorskveiðarnar að herða,
þorskastríð við Breta með sóma unnum við,
af þorskum erum komin, að þorskum munum verða
svo þorskstofninn mun lifa en hefst á æðra svið.
Heimild: Eyfirskur fróðleikur og gamanmál. 1. Bindi, Kvæði og stökur I