Veiðimaður

Hann veður árnar og veiðir,
velur sér góða staði,
ánamöðkunum eyðir,
ekki er það mikill skaði.

Honum er tamt að hæla
hitastiginu lága,
suddinn finnst honum sæla,
sólskinið mesta plága.

Frá morgni til kvölds hann kastar,
kolgráan strauminn lemur,
sækir fastar og fastar,
ef fiskurinn ekki kemur.

Loks þegar laxinn bítur,
langvinn er hafin glíma,
ef að hann ekki slítur,
endist hún marga tíma.

Loks er að landi dreginn
laxinn, sem stríðið háði,
margsinnis mældur, veginn
meðalþyngd varla náði.

Dagurinn er á enda,
örðug var þessi glíma,
hann mun samt líka lenda
í ljómanum einhvern tíma.

Í vinahóp vonir rætast,
af vörunum fréttir skruppu,
aflanum óðum bætast
allir stórir, sem sluppu.

Fræðimenn fáir skrifa
um framhaldslíf nú á dögum
þó munu látnir lifa
laxar í veiðisögum.


Heimild: Eyfirskur fróðleikur og gamanmál. 1. Bindi, Kvæði og stökur I